Gyrðir fær bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Gyrðir Elíasson.
Gyrðir Elíasson.

Gyrðir Elíasson hlýtur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 fyrir smásagnasafnið Milli trjánna.

Í umsögn dómnefndar verðlaunanna segir, að smásagnasafnið Milli trjánna, sé  stílhreint og framúrskarandi skáldverk sem lýsi innri og ytri átökum og sé í samræðu við heimsbókmenntirnar.

Gyrðir Elísasson gaf út sína fyrstu bók árið 1983, og eftir hann hafa komið út fjölmargar  smásagna- og ljóðabækur og fimm skáldsögur. Þess má geta, að Einar Kárason, rithöfundur, gaf nýjustu bók Gyrðis, sem nefnist Tunglið braust inn í húsið og er safn ljóðaþýðinga, fimm stjörnur í ritdómi í Morgunblaðinu. Bókin kom út 4. apríl á fimmtugsafmæli Gyrðis.

13 rithöfundar frá Norðurlöndunum og sjálfstjórnarsvæðunum voru að þessu sinni tilnefndir til verðlaunanna. Auk Gyrðis var Ísak Harðarson tilefndur fyrir Íslands hönd.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs nema 350.000 dönskum krónum, nær 7,5 milljónum íslenskra króna. Gyrðir mun veita verðlaununum viðtöku á Norðurlandaráðsþinginu 2. nóvember 2011 í Kaupmannahöfn. 

Verðlaun í hálfa öld

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fagna hálfrar aldar afmæli í ár en þau voru fyrst afhent árið 1962.

Ólafur Jóhann Sigurðsson fékk verðlaunin fyrstur Íslendinga árið 1976 fyrir ljóðasafnið Að laufferjum og Að brunnum. Árið 1981 fékk Snorri Hjartarson verðlaunin fyrir ljóðabókina  Hauströkkrið yfir mér. Thor Vilhjálmsson fékk verðlaunin 1988 fyrir skáldsöguna Grámosinn glóir. Fríða Á. Sigurðardóttir fékk verðlaunin 1992 fyrir skáldsöguna Meðan nóttin líður og Einar Már Guðmundsson hlaut verðlaunin 1995 fyrir skáldsöguna Engla alheimsins. Sjón fékk loks verðlaunin 2005 fyrir söguna Skugga-Baldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert