Niðurstaðan mikil vonbrigði

Jan Kees de Jager.
Jan Kees de Jager.

Jan Kees de Jager, fjármálaráðherra Hollands, segir í bréfi til forseta hollenska þingsins í dag að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar á Íslandi 9. apríl séu honum, líkt og ríkisstjórn Íslands, mikil vonbrigði. Hann segir að Bretar og Hollendingar ætli að vinna náið saman varðandi Icesave málið.

Mbl.is hefur bréf fjármálaráðherra Hollands undir höndum og fer efni þess hér á eftir í lauslegri þýðingu. 

Fjármálaráðherrann rekur í inngangi bréfsins gang málsins og samningaviðræðna um Icesave um tveggja ára skeið allt þar til samninganefndir Íslands, Hollands og Bretlands undirrituðu samkomulag í desember 2010. Hann segir að samningurinn hefði gert Íslandi kleift að binda endi á málið með hagstæðum skilyrðum. Því miður hafi það tækifæri ekki verið notað.

Jan Kees de Jager segir að nú sé tími samningaviðræðna liðinn. Nú, þegar liggi ljóst fyrir að málsaðilar komist ekki að lausn, muni Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) að öllum líkindum taka upp málarekstur gegn Íslandi.

Hann rifjar upp úrskurð ESA frá 26. maí 2010 um að Íslandi bæri skylda til þess, samkvæmt reglum Evrópusambandsins um innistæðutryggingakerfi, að bæta Icesave innistæðueigendum inneignir allt að 20.887 evrur.

Af þessu megi draga þá ályktun að Íslandi beri skylda til að borga Hollandi og Bretlandi þessa peninga, sem löndin hafi þegar reitt af hendi. Fjármálaráðherrann bætir því við í athugasemd að ekki þurfi að taka það fram að greiða beri vexti af þessari upphæð allt til greiðsludags.

Jan Kees de Jager segir að þegar ríkisstjórn Íslands ákveði að fara ekki eftir úrskurði ESA þá muni Hollendingar fara fyrir EFTA dómstólinn með málið. Hann segir að Holland og Bretland muni styðja ESA í málinu, verði þess óskað. Hann segir að Holland hafi ekki lagalega stöðu við EFTA dómstólinn.

Fjármálaráðherrann segir að í þessari viku muni ráðuneyti hans og fulltrúar ESA eiga fund. Á þeim fundi verði athyglinni einnig beint að kvörtun sem send var til ESA frá innistæðueigendum sem áttu meira en 100.000 evrur á reikningum í Icesave. Hingað til hafi ekki borist nein viðbrögð frá ESA vegna kvörtunarinnar.

Hollendingar ætla að hafa náið samstarf við Breta um áframhaldandi skref varðandi Icesave, að sögn fjármálaráðherrans. Hann segir að þeir ætli ásamt Bretum að skoða leiðir til þess að ná samningum utan dómstóla, samkvæmt 111. grein samningsins (EES-samningsins). Framkvæmdastjórn ESB muni gegna lykilhlutverki í því ferli.  

Fjármálaráðherra Hollands segir í bréfi sínu að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar muni ekki hafa nein áhrif á greiðslur úr þrotabúi Landsbankans til kröfuhafa sem njóti forgangs. Hann segir til skýringar að þeirra á meðal séu Bretland, Holland, hið opinbera og yfir 100.000 evru hópurinn.

Hann segir að ríkisstjórn Íslands búist við því að hægt verði að inna fyrstu greiðsluna af hendi síðar á þessu ári. Hún muni jafngilda um 30% af skuldinni við forgangskröfuhafa. Vörslumenn þrotabúsins áætli að eignir þrotabúsins dugi fyrir 90% af kröfum forgangskröfuhafa.

Þá segir Jan Kees de Jager í bréfinu að fyrir utan fjárhagsleg áhrif á Bretland og Holland geti Icesave málið haft alvarleg áhrif á virkni innri markaðarins (ESB) hvað varðar fjármálaþjónustu.

„Þess vegna hefi ég trú á að bæði ESA og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að finna góða lausn á þessu máli,“ segir Jan Kees de Jager í lok bréfsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert