Sundlaugar borgarinnar lagaðar

Komið verður fyrir nýjum sjópotti í Laugardalslaug.
Komið verður fyrir nýjum sjópotti í Laugardalslaug. mbl.is/Goll

Borgarráð samþykkti í dag framkvæmdaáætlun um endurbætur á sundlaugunum að upphæð 275 milljónir, en alls er gert ráð fyrir 500 milljónum króna í fjárhagsáætlun 2011.

Framkvæmda- og eignasviði er því heimilt að hefjast handa við hönnun og framkvæmdir. Endurbæturnar sem snúast ýmist um viðhald eða nýframkvæmdir ná til allra almenningslauga borgarinnar, sem og Ylstrandarinnar í Nauthólsvík.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg fer rúmlega helmingur framkvæmdafjár núna til verkefna við Laugardalslaug.  Gönguleiðir á laugarsvæðinu verða endurgerðar og upphitaðar. Þá verður komið fyrir nýjum sjópotti og farið í fyrsta áfanga á endurgerð búningsherbergja. Fleiri leiktækjum verður komið fyrir í barnalaug.

Í Grafarvogslaug verður eimbaðið endurgert, í Árbæjarlaug verður unnið við nuddpott og í tengslum við Breiðholtslaug er til skoðunar að koma fyrir líkamsræktaraðstöðu.

Gufubað á Ylströndinni er á teikniborðinu og einnig er fyrirhugað að fjölga þar leiktækjum. Hvort tveggja tengist þeirri hugmynd að halda ströndinni opinni allt árið en vinsældir hennar til sjóbaða aukast stöðugt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert