Viðræðuslit í Karphúsinu

Gylfi Arnbjörnsson og Vilhjálmur Egilsson í Karphúsinu í kvöld, þungir …
Gylfi Arnbjörnsson og Vilhjálmur Egilsson í Karphúsinu í kvöld, þungir á brún. mbl.is/Golli

Slitnað hefur upp úr viðræðum í Karphúsinu milli ASÍ og SA um gerð skammtímasamnings. Fundað hefur verið í allan dag án árangurs og óvíst um framhald viðræðna. Helsti ásteytingarsteinninn sem fyrr voru sjávarútvegsmálin.

Fyrr í dag varð ljóst að samningsaðilar næðu ekki saman um gerð samnings til langs tíma, og var þá tekið til við viðræður um samning til skemmri tíma. Um ellefuleytið í kvöld varð ljóst að aðilar næðu ekki saman, m.a. um samningstímann, en Magnús Pétursson ríkissáttasemjari hafði þá átt fund með Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, og Vilhjálmi Egilssyni, framkvæmdastjóra SA.

„Snýst ekki um launakjör heldur pólitík“

Á vef ASÍ er komin þessi yfirlýsing:

„SA skilyrti gerð skammtímasamnings sem lá á borðinu í karphúsinu í kvöld því að verkalýðshreyfingin færi með SA í stríð við ríkisstjórnina. Það átti að gerast með sameiginlegri yfirlýsingu um að ríkisstjórnin bæri ábyrgð á því að þriggja ára samningur náðist ekki fyrr í dag. ASÍ og aðildarsamtök þess eru ekki tilbúin til þess enda ríkisstjórnina komið verulega til móts við kröfur verkalýðshreyfingarinnar á allra síðustu dögum.

Auk þess lætur ASÍ ekki stilla sér upp við vegg. Alþýðusambandið og aðildarsamtök þess eru fullfær um að velja sér sína andstæðinga sjálft. Þá hefur það aldrei staðið til af hálfu ASÍ að ganga til liðs við SA í sjávarútvegsmálunum. Þessi deila um gerð kjarasamninganna snýst ekki lengur um kjör launafólks heldur pólitík. Af þessum sökum yfirgáfu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar karphúsið á tólfta tímanum í kvöld."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert