Vísað úr Hörpu

Ríkarður Örn Pálsson, tónlistargagnrýnandi, ásamt Þorgerði Ingólfsdóttur, kórstjóra.
Ríkarður Örn Pálsson, tónlistargagnrýnandi, ásamt Þorgerði Ingólfsdóttur, kórstjóra. mbl.is/Ómar

Ríkarði Erni Pálssyni, tónlistargagnrýnanda, var vísað út úr Hörpu í morgun þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt þar sína fyrstu hljóðprufu. Ríkarður Örn segir að bannið hafi eingöngu náð til gagnrýnenda en hann fékk ekki að vita hvers vegna gripið hefði verið til þessarar ráðstöfunar.

„Steinunn Birna [Ragnarsdóttir, tónlistarstjóri Hörpu] kom að mér og skipaði mér að fara út. Hún leyfði enga gagnrýnendur í húsinu,“ segir Ríkarður Örn. Hann segir að hvorki hafa komið fram hvers vegna þetta væri gert né hver hefði tekið þessa ákvörðun. „Alla vega var ég leiddur út og það var eldri kona sem sá til þess að ég myndi ekki smygla mér inn aftur.“

Ríkarður segir að fréttamenn, kvikmyndatökumenn og ljósmyndarar hafi hins vegar fengið að vera viðstaddir fyrstu hljóðprufuna. „Eftir þessu að dæma er heyrnin hættulegra skilningarvit heldur en sjónin.“

„Þetta er viðkvæmara mál heldur en hvernig þetta lítur út,“ segir Ríkarður sem er að öllum líkindum fyrsti maðurinn sem er vísað út úr nýja tónlistar- og ráðstefnuhúsinu.

„Þetta er greinilega viðkvæmt mál. Maður hefði kannski ekki átt að sýna hljómburðinum eins mikinn áhuga í fjölmiðlum fram að þessu. Ég vona bara að ég fái heyra í sveitinni einu sinni fyrir fyrstu tónleikana, því að öðru leyti er ekki hægt að bera þetta saman. Fullt hús og tómt hús er auðvitað tvennt töluvert ólíkt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert