Óréttlátt að lækka lánshæfi nú

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra svarar spurningum innlendra og erlendra blaðamanna …
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra svarar spurningum innlendra og erlendra blaðamanna um efnahagsmál. mbl.is/Árni Sæberg.

Það fælist mikið óréttlæti í því að lækka lánshæfismat Íslands núna þegar efnahagslíf þjóðarinnar er að rétta úr kútnum. Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í samtali við fréttastofu Reuters í dag.

Steingrímur er núna staddur á fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans í Washington ásamt Árna Páli Árnasyni efnahags- og viðskiptaráðherra.

„Ég tel að lækkun á lánshæfismati núna væri óheppileg og ekki réttlætanleg,“ sagði Steingrímur í viðtalinu. „Ef litið er til sterkra undirliggjandi þátta í efnahagslífi Íslands þá erum við að standa okkur vel. Efnahagslífið er farið að vaxa og við erum komin í gegnum það versta. Okkur er að ganga betur og lækkun á lánshæfi núna væri einkennileg.“

Steingrímur lagði áherslu á að Bretar og Hollendingar myndu fá fjármuni sína til baka þar sem Landsbankinn ætti miklar eignir. „Háar fjárhæðir verða greiddar af bankanum, en um þriðjungur verður greiddur fyrir jól og nýjasta matið gerir ráð fyrir að bankinn geti greitt jafnvel 100%,“ sagði Steingrímur.

Steingrímur sagði í samtali við RÚV í dag að hann óttaðist að erfitt yrði að fá matsfyrirtækin til að lækka ekki lánshæfismatið, m.a. vegna þess að þau hefðu verið búin að lýsa því yfir fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave að lánhæfismat Íslands yrði lækkað ef þjóðin hafnaði Icesave-samningunum.

Steingrímur átti í dag fund með George Osborne fjármálaráðherra Bretlands og lagði þar áherslu á að þrotabú Landsbankans ætti miklar eignir sem notaðar yrðu til að greiða Bretum og Hollendingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert