Sementsverksmiðjan í gang að nýju

Sementsverksmiðjan Akranesi
Sementsverksmiðjan Akranesi

Framleiðsla í Sementsverksmiðjunni á Akranesi fer af stað í dag, en verksmiðjan hefur ekki framleitt sement í níu og hálfan mánuð. Áætlað er að framleiða 25 þúsund tonn af sementi, en hluti af framleiðslunni er nú þegar seldur, meðal annars í Búðarhálsvirkjun.

Þetta kemur fram á vef Verkalýðsfélags Akraness. Félagið segir að þetta séu gríðarlega jákvæð tíðindi enda hafi rekstrarumhverfi Sementsverksmiðjunnar verið mjög erfitt í kjölfar hruns á byggingarmarkaðinum. Í fyrra voru flutt inn um 28 þúsund tonn af sementi. Vilhjálmur Birgisson, formaður félagsins, gagnrýnir þetta og segir að íslenska ríkið eigi að styrkja íslenska framleiðslu og versla allt sitt sement innanlands en með því sparist umtalsverðar gjaldeyristekjur.

Árið 2007 framleiddi Sementsverksmiðjan 153 þúsund tonn af sementi sem var nánast metár en í fyrra voru einungis framleidd 38.700 tonn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert