Vonandi ný samningalota eftir páska

Upp úr viðræðum ASÍ og SA slitnaði á föstudagskvöld.
Upp úr viðræðum ASÍ og SA slitnaði á föstudagskvöld.

Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, sagði í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni, að hann gerði sér vonir um að aðilar vinnumarkaðarins geti sest niður aftur eftir páskana og gert aðra atlögu að því að ná kjarasamningi, helst samningi til þriggja ára. 

Helgi sagði, að stjórnvöld yrðu að koma að því máli. Hann sagði, að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefði sl. fimmtudag lagt fram svokallaða sáttatillögu í sjávarútvegsmálum vegna kjaraviðræðnanna.

Las Helgi upp úr tillögunni þar sem sagði m.a. að markmið nýrra laga um stjórn fiskveiða væri að brjóta upp núverandi kvótakerfi og reisa skorður við því að kvótaeigendur geti fénýtt þá sameign landsmanna, sem fiskimiðin eru, með því að leigja eða selja öðrum veiðiheimildir á himinháu verði.

„Stjórnvöld lýsa því yfir, að þau muni fara með hagsmunaaðilum yfir þá úttekt sem nú liggur fyrir og meta með þeim hvort og þá hvaða breytingar þurfi að gera ef úttektin sýnir, að fyrirhugaðar breytingar kvótakerfis  hafi umtalsvert neikvæð áhrif umfram það sem eðlileg gjaldtaka hefur í för með sér." 

„Það á semsagt að breyta kerfinu þannig að það hafi neikvæð áhrif og meta hvort það séu neikvæð áhrif umfram það sem eðlilegt er. Ef þetta er sáttatillaga frá Jóhönnu Sigurðardóttur þá leikur mér forvitni á að vita hvernig hún myndi orða stríðsyfirlýsingu," sagði Helgi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert