Leið Íslands

Bandaríska blaðið New York Times fjallar um Ísland í leiðara í dag og segir, að sú leið landsins að ábyrgjast ekki skuldir bankakerfisins og neyða erlenda kröfuhafa til að taka á sig tap virðist æ skynsamlegri enda sé efnahagur landsins að ná sér á strik á ný.

Segir blaðið, að Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gætu lært af Íslandi. Björgunaraðgerðum vegna Grikklands og Írlands hafi verið ætlað að tryggja hagsmuni kröfuhafa en nú þegar verið sé að semja um björgunaraðgerðir vegna Portúgals ættu þessir aðilar að gera sér grein fyrir því að skattgreiðendur geti ekki axlað allan þann kostnað, sem misgjörðir bankanna hafa haft í för með sér. 

„Það var ekki ásetningur íslensku ríkisstjórnarinnar að vera skynsamari eða áræðnari en aðrar. Hún hafði ekki efni á að bjarga bönkunum og lét þá því falla," segir blaðið. Innlendar innistæður og lán hafi verið flutt í nýja banka auk jafnvirði um 2 milljarða dala frá skattgreiðendum. Erlendar eignir og skuldir bankanna hefðu verið skildar eftir. Sumir erlendir kröfuhafar geti ekki gert ráð fyrir að fá meira en 27 sent af hverri evru til baka. 

New York Times rekur síðan þróun íslenskra efnahagsmála frá hruni og segir að nú stefni í málaferli fyrir EFTA-dómstólnum að kröfu Breta og Hollendinga.

Samt sé efnahagur Íslands að batna, útlit sé fyrir 2,5% hagvöxt á árinu og skuldatryggingaálag á íslenska ríkið sé lægra en hjá Írlandi, Grikklandi og Portúgal. 

Leiðari New York Times

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert