Segir Moody's hafa lagst á sveif með já-mönnum

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra.
Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra. mbl.is/RAX

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, segir á heimasíðu sinni að matsfyrirtækið Moody's hafi í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar um síðustu Icesave-samningana lagst á sveif með þeim sem vildu samþykkja þá. Fyrirtækið hefði sagt að hafnaði þjóðin samningunum yrði lánshæfiseinkunn íslenska ríkisins sennilega lækkuð. Þetta hafi stuðningsmenn samninganna síðan nýtt sér í baráttu sinni.

Eins og greint var frá í gær ætlar Moody's ekki að lækka lánshæfiseinkunn sína fyrir íslenska ríkið þrátt fyrir höfnun Icesave-samninganna en segir þó horfur enn neikvæðar. Einkunnin er nú einum flokk fyrir ofan svokallaðan ruslflokk.

„Um síðustu helgi var látið eins og Steingrímur J. Sigfússon og Árni Páll Árnason hefðu lagt sig fram um það í Washington að hafa áhrif á matsfyrirtækin og hindra lækkun á lánshæfismatinu,“ segir Björn. Hann segir að taki fyrirtækin mark á orðum ráðherra í ríkisstjórninni geri þau varla miklar kröfur til heimildamanna sinna.

„Ætli það sé ekki einsdæmi að ríkisstjórn sitji eins og ekkert hafi í skorist, þótt lögum hennar um lykilmál hafi verið hafnað tvisvar sinnum í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það væri forvitnilegt að heyra álit matsfyrirtækja á því,“ segir Björn að lokum.

Heimasíða Björns Bjarnasonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert