Ríkið lækki bensínskatta

Við Miklubraut að kvöldlagi.
Við Miklubraut að kvöldlagi. mbl.is/Ernir

Ríkisvaldið ætti að draga úr álögum á eldsneyti en innheimta í staðinn vegtolla. Þetta er mat Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sem telur vegtolla heppilegri leið til að afla tekna. Stuðla þurfi að stöðugra verði á eldsneyti.

Eins og kunnugt er rennur hluti bensínskatta til annarra málaflokka en samgöngumála. Vilhjálmur telur að með vegtollum væri hægt að afla tekna sem rynnu síðan beint til vegamála.

„Ég held að það sé stöðugri skattheimta og að það sé hægt að stilla hana betur af út frá forgangsröðun og öðru. Það er meiri stöðugleiki í þeirri skattheimtu. Hún fer ekki upp þegar olíuverðið fer upp og niður þegar orkuverð fer niður.“

- Eru menn einhuga í þínum samtökum í þessari afstöðu?

„Við höfum heilmikið verið að ræða þetta í tengslum við kjarasamningana. Þetta er hugmynd sem við viljum gjarnan leggja fram og til umræðu,“ segir Vilhjálmur og bætir því við að eldsneytisverðið sé farið að slá á kaupmátt almennings. Því geti slíkar breytingar vegið þungt. „Fólk fer þá að eyða minna í annað. Þetta er hluti af okkar lífskjörum, að geta ekið á ódýru bensíni. Þegar það er ekki í boði versna lífskjörin,“ segir Vilhjálmur en eins og fram kemur á mbl.is í dag greiðir ökumaður sem ekur 15.000 km á ári nú um 450 krónur í bensínskatt á dag, alls ríflega 162.000 krónur á ári.

„Þegar það eru svona miklar sveiflur í eldsneytisverðinu eru þessar álögur ef til vill ekki heppilegar sem markaður tekjustofn fyrir vegi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert