Vill aflétta leynd af fundargerðum OR

mbl.is/Heiðar

Kjartan Magnússon, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, hefur lagt fram tillögu um að  leynd verði aflétt af fundargerðum stjórnar félagsins frá stofnun þess, 1. janúar 1999 til 1. febrúar 2008.

Ákveðið var, þegar Orkuveitan var stofnuð, að fundargerðir stjórnar fyrirtækisins yrðu ekki opinberar. Kjartan segir í greinargerð með tillögunni, að þessi leynd hafi gert það að verkum að erfiðara var fyrir almenning og fjölmiðla að fylgjast með ákvörðunum stjórnar en ef fundargerðirnar hefðu verið opinberar, eins og gilti um aðrar stofnanir Reykjavíkurborgar eða félög í meirihlutaeigu hennar.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti árið 2008 þá tillögu fulltrúa sjálfstæðismanna að fundargerðir stjórnarinnar yrðu gerðar opinberar og birtar á heimasíðu fyrirtækisins. Ákvörðunin var þó ekki afturvirk, og hvíldi því áfram leynd yfir fundargerðum stjórnar frá 1. janúar 1999 til 1. febrúar 2008.

Kjartan vill nú, að fundargerðir frá þessu tímabili verði einnig opinberaðar og gerðar almenningi og fjölmiðlum aðgengilegar á heimasíðu fyrirtækisins.

Hann segir í greinargerð með tillögunni, að miklar umræður hafi að undanförnu átt sér stað um erfiða stöðu Orkuveitu Reykjavíkur og þær ákvarðanir, sem leiddu til þessarar stöðu.

„Ljóst er að í umræddum fundargerðum eru víðtækar upplýsingar um rekstur Orkuveitunnar og stefnumörkun vegna mikilla fjárfestinga fyrirtækisins í virkjunum og veitustarfsemi á undanförnum áratug. Verði hulunni svipt af umræddum fundargerðum, mun það stuðla að því að upplýstar og skynsamlegar umræður geti átt sér stað á opinberum vettvangi um þessi atriði," segir í greinargerðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert