Verkföll gætu skollið á upp úr 20. maí

Samninganefnd ASÍ á fundi í gær.
Samninganefnd ASÍ á fundi í gær. mbl.is/RAX

Forysta verkalýðshreyfingarinnar er vondauf um að sáttatilraunir beri árangur næstu daga. Í næstu viku verður þá farið að undirbúa allsherjarverkföll sem gætu hafist upp úr 20. maí skv. heimildum mbl.is. 

„Það er alveg ljóst að það eru meiri líkur á því en minni að hér dragi til alvarlegra deilna þegar fer að líða á seinni hluta maímánaðar,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. Miðstjórn ASÍ kom saman eftir hádegi í dag.

„Ég vænti þess að það verði fundir á morgun og á föstudaginn hjá aðildarsamböndum okkar og aðildarfélögum um kröfur þeirra um að fá samning sem tryggi launahækkanir á þessu ári,“ segir Gylfi.

Aðgerðahópur Starfsgreinasambandsins fundaði í morgun um mögulegar aðgerðir sem gripið verður til ef sáttatilraunir í kjaradeilunni bera ekki árangur. Að sögn Gylfa báru menn svo saman bækur sínar í hádeginu. 

Reiknað er með fundi í kjaradeilu iðnaðarmanna og Samtaka atvinnulífsins á morgun og sáttafundir eru boðaðir í deilum SA og Flóafélaganna, Landssambands íslenskra verslunarmanna og VR á föstudaginn.

„Ég lít svo á að tækifæri atvinnurekenda til þess að fara þessa atvinnuleið sem þeir hafa lagt mikla áherslu á, hafi þeir glutrað úr höndum sér með framferði sínu fyrir páska og í raun og veru verðum við ekki vör við annað en að það sé bara það sama upp á teningnum núna. Það er búið að gera menn andhverfa því að fara þessa leið,“ segir Gylfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert