Guðmundur að hætta

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins.
Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins. mbl.is/Frikki

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, gefur ekki kost á sér sem formaður RSÍ á þingi sambandsins sem hefst í dag. Þrír hafa lýst yfir framboði til formanns en kosning fer fram á morgun. 

Guðmundur tilkynnti á félagsfundi fyrir 4 árum að kjörtímabilið sem nú er á enda væri hans síðasta sem formaður RSÍ. Guðmundur segir í samtali við mbl.is að hann standi við þessa yfirlýsingu. Hann hefði talið rétt að hætta þegar hann næði 65 ára aldri.

Guðmundur hefur verið beðinn um að endurskoða þessa ákvörðun. „Það hefur rignt yfir mig áskorunum um að endurskoða þessa afstöðu. Þetta er gríðarlega umfangsmikið starf sem hefur tekið stóran hluta af lífi manns undanfarinn áratug og ég hef sagt að ég gæti vel hugsað mér að hafa meira svigrúm fyrir sjálfan mig,“ segir hann.

„Ég hef sagt mönnum að ég hafi ekkert velt því fyrir mér að endurskoða þessa afstöðu. Ég hef verið spurður að því hvað muni gerast ef fram koma áskoranir um þetta á þinginu en hef sagt að ég muni ekki svara því fyrr en að því kemur.“

Kosningarnar fara fram síðdegis á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert