Lokatilraun í dag

Forystumenn SA vonast eftir niðurstöðu í viðræðum við forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar …
Forystumenn SA vonast eftir niðurstöðu í viðræðum við forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar í dag.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að ráðast muni í dag hvort viðræður við ríkisstjórnina um aðgerðir vegna kjarasamninga ganga upp eða ekki.  

„Við erum alltaf í samskiptum við forystumenn ríkisstjórnarinnar og höfum reynt að gera lokatilraun til að ljúka málunum gagnvart þeim. Það ræðst í dag hvort það gengur eða ekki,“ segir Vilhjálmur.

Ef þetta gengur ekki eftir, verði að hans sögn að gera eitthvað annað en að fara atvinnuleiðina. „Því miður, vegna þess að hún er eina leiðin út úr kreppunni. Þá værum við bara með einum eða öðrum hætti að hjakka í sama farinu,“ segir hann.

Samtök atvinnulífsins funduðu í morgun með samninganefndum iðnaðarmanna. Á fundinum lögðu iðnaðarmenn fram hugmyndir um samning til eins árs.

„Við ákváðum að hittast aftur á morgun. Þeir lögðu fram sínar hugmyndir um eins árs samning og við fórum yfir stöðuna varðandi atvinnuleiðina og ræddum fram og til baka hvað stæði útaf og hvað hægt væri að gera, bæði þeirra megin og okkar,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir að viðræðunum verði haldið áfram á morgun hvort sem Samiðn og Rafiðnaðarsambandið hafa þá ákveðið að vísa deilunni til ríkissáttasemjara eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert