Færri ungar konur í fóstureyðingu

Færri ungar konur fara í fóstureyðingu í dag en fyrir …
Færri ungar konur fara í fóstureyðingu í dag en fyrir 10 árum síðan. Rax / Ragnar Axelsson

Fjöldi fóstureyðinga sem framkvæmdar eru á ári hverju á Norðurlöndunum hefur heldur aukist síðasta áratug en fóstureyðungum meðal kvenna yngri en 20 ára hefur fækkað á Íslandi á sama tímabili.

Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Talnabrunns, fréttabréf landlæknis um heilbrigðistölfræði. Þar kemur fram að 80.900 fóstureyðingar voru framkvæmdar á Norðurlöndunum árið 2009, þar af 970 á Íslandi.

Í Svíþjóð voru framkvæmdar hlutfallslega flestar fóstureyðingar, eða 335 á hverja 1.000 lifandi fædda en þær voru fæstar í Finnlandi, 172 á hverja 1.000 lifandi fædda.

Það ber þó að hafa í huga að reglur um fóstureyðingar eru mismunandi á Norðurlöndunum, þannig er heimilt í Svíþjóð að fara í fóstureyðingu fram að 19. viku en annar staðar skulu slíkar aðgerðir ekki framkvæmdar eftir 12 viku nema læknisfræðilegar ástæður gefi tilefni til.

Fækkar á Íslandi

Fóstureyðingum sem framkvæmdar eru hjá konum undir 20 ára hefur fækkað í Finnlandi, Noregi og á Íslandi undanfarin áratug og er fækkunin hér umtalsverð. Þannig gengust 12 konur á hverjar 1.000 í aldurshópnum 15-19 ára undir fóstureyðingu árið 2009, miðað við 21 konu árið 1999.

Á Norðurlöndum eru fóstureyðingar hlutfallslega algengastar hjá aldurshópnum 20-24 en fæstar í aldurshópnum 45-49. 

Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð geta konur tekið þá ákvörðun upp á sitt einsdæmi að fara í fóstureyðingu en í Finnlandi og á Íslandi þarf að liggja fyrir rökstuðningur frá lækni eða félagsráðgjafa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert