Mikilvægast að þjóðin standi saman

Frá kröfugöngu 1. maí.
Frá kröfugöngu 1. maí. mbl.is/Júlíus

„Á tímum erfiðleika og samdráttar er mikilvægast af öllu að þjóðin standi saman. Nú er ekki tími sérhagsmuna og þvermóðsku, nú er tími samhygðar og samstöðu. Verkalýðshreyfingin er reiðubúin til að leggja sitt af mörkum til að endurreisa landið úr efnahagslægðinni. Ábyrg samstaða mun skapa atvinnu og verja velferðar- og velmegunarsamfélagið sem Ísland á að vera," segir m.a. í 1. maí ávarpi verkalýðsfélaganna í Reykjavík, BSRB, Bandalags háskólamanna, Kennarasambands Íslands og Sambands íslenskra framhaldsskólanema. 

Hefðbundin hátíðarhöld verða í borginni í tilefni af 1. maí, sem er á sunnudag. Safnast verður saman á Hlemmtorgi um klukkan 13 og síðan heldur kröfuganga af stað niður Laugaveg, Bankastræti Austurstræti og inn á Ingólfstorg en útifundir hefst á Austurvelli klukkan 14. 

Í ávarpi verkalýðsfélaganna segir m.a., að endursmíð velsældar á Íslandi byggist á endurreisn atvinnulífsins og varðstöðu um velferðina.

„Til þess að geta byggt upp atvinnuna á ný, þurfa atvinnufyrirtækin aðgang að fjármagni og skilyrði til endurreisnar. Verkefnin blasa við hvarvetna og það er hlutverk ríkis og sveitarfélaga að hvetja atvinnureksturinn áfram, hvort sem er í iðnaði, viðhaldi fasteigna eða í almennum atvinnurekstri. Þeir sem leggja stein í götu atvinnuuppbyggingar eru að viðhalda atvinnuleysinu og vonleysinu sem því fylgir."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert