Biðst ekki afsökunar

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason

Björn Valur Gíslason, alþingismaður, svaraði í gær bréfi frá lögmanni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, alþingismanns, frá því í apríl og biðst hvorki afsökunar né dregur til baka ummæli um að Guðlaugur Þór hefði þegið mútugreiðslur.

Björn Valur lét þessi orð falla á vef sínum í lok síðasta árs. Lögmaður Guðlaugs Þórs sendi Birni Val bréf um miðjan apríl þar sem þess var krafist að Björn Valur drægi ummælin til baka og bæðist afsökunar á þeim en ella yrði höfðað meiðyrðamál.

„Ég játa að mér kom bréf þitt nokkuð á óvart þar sem vísað er til þess að á vefsíðu minni eru orð um skjólstæðing þinn sem marg oft hafa verið viðhöfð um hann áður og án athugasemda af hans hálfu," segir Björn Valur í svarbréfi sínu, sem hann birtir á heimasíðu sinni.

„Má í dæmaskyni nefna orð Svandísar Svavarsdóttur, ráðherra, vegna svonefnds REI- máls, færslur á heimasíðu Ögmundar Jónassonar, ráðherra, vegna sama máls, sömu orð á föstum dálki í DV og fleira sem tína má til. Hafði ég því tilefni til að álykta að skjólstæðingur þinn væri síður en svo viðkvæmur fyrir því orðalagi, sem ég kaus að nota.

Að öðru leyti má nefna að orðið ,“mútur“ er notað í víðtækri merkingu og á síðari tímum æ oftar bæði í ræðu og riti. Tilefnin eru alþekkt.

Mér þykir miður að hafa valdið skjólstæðingi þínum hugarangri, en ítreka undrun mína á því að hann hafi ekki gert athugasemdir  vegna sambærilegra ummæla, sem eru sannanlega sett fram miklu fyrr en mín orð féllu," segir í svarbréfi Björns Vals.

Vefur Björns Vals Gíslasonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert