Vill skýringar á tíðum heimsóknum ísbjarna

Ísbjörninn á Hornströndum í gær.
Ísbjörninn á Hornströndum í gær. Mynd / Landhelgisgæslan

Umhverfisráðherra hefur óskað eftir því að Náttúrufræðistofnun Íslands setji saman greinargerð í samvinnu við Umhverfisstofnun, Veðurstofu Íslands og aðra hlutaðeigandi aðila um mögulegar ástæður fyrir aukinni tíðni á komu ísbjarna til landsins.

Óskað er eftir því að Náttúrufræðistofnun hafi samband bæði við hérlenda fræðimenn og erlenda til þess að reyna að meta hvort tíðar komur ísbjarna „séu tilviljun, eða endurspegli á einhvern hátt breytingar á náttúrufari, sem kalli á aukinn viðbúnað út frá öryggis- og verndarsjónarmiðum,“ eins og fram kemur í fréttatilkynningu frá umhverfisráðuneytinu.

Fram kemur í tilkynningunni að hafís hafi verið langt frá landi á undanförnum árum en sögulega séð hafi verið skýrt samband á milli komu ísbjarna til landsins og að hafís hafi legið við landið eða þá skammt undan því. Þá er rifjað upp að fjórir birnir hafa gengið hér á land á undanförnum þremur árum. Það sé mjög óvenjulegt þegar litið sé til síðustu áratuga en jafnmargir birnir hafi komið hingað á næstu 70 árum þar á undan.

„Þetta vekur upp spurningar um hvort búast megi við reglulegum heimsóknum bjarndýra á komandi árum og hvort efla þurfi vöktun á hvítabjörnum og endurskoða stefnu stjórnvalda um viðbúnað vegna landtöku þeirra,“ segir í tilkynningunni.

Segir björgunaráætlun til

Þá segir í fréttatilkynningu umhverfisráðuneytisins að ekki sé rétt sem komið hafi fram í fjölmiðlum að stjórnvöld hafi ekki látið gera áætlun til þess að ná ísbjörnum lifandi sem hingað kunni að koma.

„Fyrir liggur ítarleg úttekt á viðbúnaði sem þarf til að reyna að bjarga hvítabjörnum lifandi, en það var hins vegar niðurstaða að of mikil óvissa væri um árangur slíkra björgunartilrauna til að réttlæta kostnaðarsaman viðbúnað, auk þess sem engin rök sem lytu að vernd tegundarinnar eða dýravernd kölluðu á slíkar aðgerðir,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert