60 milljarðar á samningstíma

Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir kynna yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í …
Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir kynna yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkisstjórnin áætlar að heildarkostnaður við þær aðgerðir, sem tengjast nýjum kjarasamningum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, sé 60 milljarðar króna á samningstímanum, eða til loka janúar 2014.

Fram kom á blaðamannafundi Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, og Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, nú í kvöld, að áætlað sé að kostnaður ríkissjóð vegna samninganna verði 10 milljarðar á þessu ári, 20 milljarðar á næsta ári og 30 milljarðar króna á árinu 2013. 

Steingrímur setti þó talsverða fyrirvara við þessar tölur og sagði þær vera grófa áætlun. 

Steingrímur sagði mikið fagnaðarefni, að samningarnir hefðu náðst og að hinir tekjulægstu í samfélaginu væru að fá verulega úrlausn. Jóhanna lýsti einnig ánægju með að samningarnir hefðu náðst. Bæði sögðu þau, að góður árangur í ríkisfjármálum og stöðugleiki í efnahagsmálum hefðu gert aðgerðir ríkisins mögulegar en þær væru líklega þær umfangsmestu, sem gerðar hefðu verið í tengslum við kjarasamninga. Tók Steingrímur fram að sambærilegar aðgerðir hefðu ekki verið mögulegar á síðasta ári. 

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir, að með henni skuldbindi stjórnvöld sig til að vinna af einurð að því að leggja grunn að varanlegum hagvexti og velferð. 

Er því m.a. heitið að endurskoða tekju- og eignatenging vaxtabóta og barnabóta  í tengslum við framlagningu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2012. Þá verði lögfest,  að persónuafsláttur taki breytingum í samræmi við verðlagsbreytingar. Skattar   einstaklinga lækki í samræmi við það í ársbyrjun 2012.

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert