Óstarfhæf nefnd án afsökunarbeiðni

Þráinn Bertelsson (t.v.) og Bjarni Benediktsson formaður sjálfstæðisflokksins ræðast við.
Þráinn Bertelsson (t.v.) og Bjarni Benediktsson formaður sjálfstæðisflokksins ræðast við. mbl.is/Golli

„Þessi orðaskipti voru á milli mín og viðmælenda minna og koma starfi Þingvallanefndar ekkert við,“ segir Þráinn Bertelsson, fulltrúi VG í Þingvallanefnd Alþingis. Á fundi nefndarinnar á fimmtudag var tekist á um hverja skyldi velja í dómnefnd vegna hugmyndavinnu um framtíð Þingvalla.

Eftir að fundi var slitið mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hafa sagt við Þráin að engu hefði skipt hvaða nöfn hefðu komið frá Sjálfstæðisflokknum, Þráinn hefði hafnað þeim öllum. Þá mun Þráinn hafa snöggreiðst og sagst ekki í neinum vandræðum með að ræða við sjálfstæðismenn. Hann talaði bara ekki við „fasistapakk“ og beindi þá orðum sínum að Þorgerði og Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Þær hafa lagt fram bókun, krefjast afsökunarbeiðni og segja nefndina annars óstarfhæfa. Á fundinum gerðu þær athugasemdir við að formaðurinn, Álfheiður Ingadóttir, vildi með einstrengingslegum hætti koma ákveðnu fólki inn í dómnefndina. Þær hefðu lagt til ný nöfn í þeirri von að hægt yrði að ná samstöðu en ekki hefði verið neinn vilji til þess.

Samkvæmt heimildum mun mestur styr hafa staðið um að Álfheiður vildi fá rithöfundinn Andra Snæ Magnason í dómnefndina, en verk hans eru umdeild.

En er Þráinn, sem síðan hefur farið ófögrum orðum um Þorgerði á Facebook-síðu sinni og m.a. kallað hana „kúlulána- og íhaldsbelju,“ reiðubúinn að biðjast afsökunar til að skapa frið um nefndina? „Ekki fyrr en það frýs í víti,“ segir hann, en „það er velkomið að biðjast afsökunar þegar þær og Sjálfstæðisfokkurinn hafa beðist afsökunar á því að valda hér þjóðfélagshruni.“ onundur@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert