Ísland komst áfram

Vinir Sjonna á sviðinu á Esprit-leikvanginum í Düsseldorf í Söngvakeppni …
Vinir Sjonna á sviðinu á Esprit-leikvanginum í Düsseldorf í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í kvöld. Reuters

Íslenski Evróvisjón-hópurinn, Vinir Sjonna, komst áfram úr fyrri undanúrslitakeppninni í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem fram fór í kvöld. Fín frammistaða nægði Íslendingum og þriðja árið í röð komu Íslendingar upp úr síðasta umslaginu.

Tíu lög komust áfram í úrslit Evróvisjón-keppninnar sem haldin er í Düsseldorf í Þýskalandi á laugardag, og þar verða Íslendingar á meðal þátttakenda. Fyrri hluti undankeppninnar fór fram í kvöld og síðari hlutinn verður á fimmtudag.

Óhætt er að segja, að Íslendingar hafi upp til hópa verið neikvæðir þegar kom að gengi íslenska framlagsins fyrir keppni og helstu álitsgjafar voru á þeirri skoðun að lagið kæmist ekki áfram. Meðal annars sagði Páll Óskar Hjálmtýsson, einn helsti Evróvisjón-spekingur Íslands, að ólíklegt væri að Ísland kæmist áfram.

Var sú staðreynd að Ísland var dregið upp úr síðasta umslaginu, þegar m.a. Tyrkir og Norðmenn voru eftir, sérstaklega skemmtileg og átti Hrafnhildur Halldórsson, sem lýsti keppninni fyrir RÚV, erfitt með að halda aftur af tilfinningum sínum. Öskraði hún upp yfir sig og viðurkenndi svo að hún gréti af gleði.

Þær tíu þjóðir sem komust áfram eru:

  • Serbía
  • Litháen
  • Grikkland
  • Aserbaídjan
  • Georgía
  • Sviss
  • Ungverjaland
  • Finnland
  • Rússland
  • Ísland
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert