Segja Kristján undir gríðarlegum þrýstingi

Reuters

Alþjóðadýraverndunarsamtökin (IFAW) segja að Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., hafi með ákvörðun sinni að stöðva hvalveiðar loksins viðurkennt að það sé tilgangslaust að veiða langreyði. Þetta segir í yfirlýsingu frá samtökunum þar sem ákvörðunni er jafnframt fagnað.

Kristján sagði við mbl.is fyrr í dag að hvalveiðar myndu ekki hefjast á hefðbundnum tíma í ár vegna ástandsins  í Japan og þeim yrði frestað um óákveðinn tíma. Staðan yrði svo endurskoðuð í ágúst. Kristján er nýkominn frá Japan þar sem hann kynnti sér ástand mála í kjölfar hamfaranna í mars.

IFAW segja aftur á móti að Kristján hafi lýst yfir vopnahléi. Hann hafi verið undir gríðarlegum þrýstingi að hætta veiðunum og því hafi hann tilkynnt að hann muni segja upp 30 starfsmönnum og hætta hvalveiðum. Þá segir í yfirlýsingunni að veiðin muni ekki hefjast aftur fyrr en í fyrsta lagi eftir næsta fund Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem verði haldinn í júlí.

Í yfirlýsingunni segir Robbie Marsland, framkvæmdastjóri IFAW í Bretlandi, að Kristján hafi staðið frammi fyrir því að markaðsaðstæður í Japan séu gríðarlega erfiðar. Á Íslandi sé enginn markaður fyrir langreyði og þá hafi bæði Bandaríkin og Evrópusambandið hótað að beita Ísland refsiaðagerðum. 

„Það lítur út fyrir að herra Loftsson hafi loksins viðurkennt að það þjónar engum raunverulegum tilgangi að halda áfram að drepa langreyði. Við vonum að hann haldi áfram að láta þá í friði,“ segir Marsland.

Í yfirlýsingunni er hrefnuveiðum Íslendinga jafnframt mótmælt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert