Hvolpasvindlarar frá Kamerún

Hundur af gerðinni Siberian Husky.
Hundur af gerðinni Siberian Husky.

Fjölskylda á höfuðborgarsvæðinu sem hugðist fá sér hvolp varð nýverið fyrir barðinu á óprúttnum svindlurum frá Kamerún, sem höfðu fé út úr fjölskyldunni. Ekki er hægt að kæra  málið, þar sem svikahrapparnir eru erlendir.

Fjölskyldan hafði séð auglýsingu um að hægt væri að fá hvolp af tegundinni Siberian Husky endurgjaldslaust, það eina sem þyrfti að greiða væri sendingargjaldið, því hvolparnir væru staddir úti á landi.

Auglýsingin var svohljóðandi: „Ég er að leita að fallegum heim til að þóknast setja eitthvað af 3 hvolpa mína. Áhugasamir vinsamlegast koma aftur til mín eins fljótt og auðið er. þeir eru mjög dásamlegt við gott geðslag.fáðu frekari upplýsingar“.

„Við greiddum sendingarkostnaðinn, sem var 35.000 krónur,“ segir móðirin í fjölskyldunni, sem ekki vill láta nafns síns getið. „Við vorum á báðum áttum, okkur þótti auglýsingin skrýtin, en það var svo mikil pressa frá krökkunum um að fá hundinn,“  segir konan sem á fjögur börn.

Konan segir að sér hefði verið sagt í símtali að hvolpurinn væri á Norðfirði og að eigendurnir gætu ekki haft hann lengur vegna þess að dóttir þeirra væri á spítala.

„Síðan fékk ég símtal, frá manni sem talaði mjög bjagaða ensku. Ég skildi ekki það sem hann sagði, hann sendi mér því tölvupóst þar sem sagði að ég þyrfti að borga 40.000 krónur til viðbótar, því að hundarnir þyrftu að vera í sérstökum búrum í flugvélinni.“

Konan segist hafa hringt í já.is til að fá upplýsingar um símanúmerið sem hringt var úr og í ljós kom að það var skráð í Kamerún.

Hún sendi manninum tölvupóst og spurði hann hvers vegna hún fengi símtal frá Kamerún vegna hvolpa á Norðfirði.

„Þá sagði hann að fyrirtækið sem flytur hvolpana væri með starfsemi í Kamerún. Þá fannst mér þetta vera orðið skrýtið og ákvað að borga ekki meira.“

Samskiptum konunnar og svindlaranna var þó ekki alveg lokið, því í morgun fékk konan ítrekunarpóst frá þeim, þar sem lýst er yfir gremju yfir því að hún hafi hætt við viðskiptin.

„Mér datt einfaldlega ekki í hug að væri verið að reyna að plata mig,“segir konan. „Krakkarnir eru mjög sárir, en við erum ekki búin að gefast upp á að fá okkur hund og erum komin í samband við hundaræktanda“.

Auglýsingin um hvolpana



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert