Kópavogur uppfyllir lagaskyldur

Kópavogur.
Kópavogur.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála hefur kveðið upp þann úrskurð að sú ferðaþjónusta sem Kópavogsbær veitir lögblindum einstaklingum í bænum samræmist lögum um málefni fatlaðra. 

Blindrafélagið hefur haldið því fram að bærinn veiti ekki þá ferðaþjónustu sem lög kveði á um en bæjaryfirvöld hafa vísað því á bug og bent á að þjónustan sé jafnvel betri en lög geri ráð fyrir. 

Upphaf málsins er, að stjórn Blindrafélagsins óskaði eftir viðræðum við bæjaryfirvöld um að bærinn tæki þátt í leigubílakostnaði lögblindra í bænum. Því erindi var hins vegar hafnað á þeim forsendum að með því væri verið að veita lögblindum ferðaþjónustu umfram annað fólk með fötlun.
 
Bæjaryfirvöld bentu jafnframt á að ferðaþjónusta fyrir fatlað fólk væri sértæk almenn þjónusta og að lögblindir gætu nýtt sér sérútbúna bíla ferðaþjónustunnar til að sækja vinnu, skóla eða hæfingu. Í Kópavogi gætu þeir sem nýttu sér ferðaþjónustuna fengið allt að 68 ferðir á mánuði og að kvöldferðir mætti panta samdægurs.
 
Málið fór fyrir úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir að bærinn synjaði kröfu sautján ára drengs um niðurgreidda leigubílaþjónustu. Hann taldi að bærinn bryti með því ákvæði laga um málefni fatlaðra. Á það féllst nefndin ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert