Hefur oft dreymt um að lenda í Keflavík á flugi yfir landinu

John Swanholm Magnusson
John Swanholm Magnusson mbl.is/Árni Sæberg

Í byrjun næsta mánaðar, nánar tiltekið að morgni 2. júní, verður brotið blað í flugsögu bandaríska flugrisans Delta með beinu áætlunarflugi milli New York og Keflavíkur. Flugstjóri í fyrstu ferðinni verður Íslendingurinn og Vestur-Íslendingurinn Jón Swanholm Magnússon yngri.

„Þetta er stórt skref hjá Delta en enn meiri áfangi hjá mér,“ segir Jón sem segist hafa óskað eftir í tölvupósti til Richard Andersons, yfirmanns Delta, að vera flugstjóri í fyrstu ferðinni. „Ég rakti ferilinn, tengslin við Ísland og klykkti út með því að segja að ég væri góður í íslensku. Það hefur sennilega gert gæfumuninn,“ segir hann og brosir sínu breiðasta. Bætir við að hann hafi líka sent yfirflugstjóranum tölvupóst um málið og svarið hafi verið jákvætt: „Við setjum þig á fyrsta flugið.“

Jón er vararæðismaður Íslands í Minneapolis og hefur um árabil verið mjög virkur í félagsstarfi fólks af íslenskum ættum í borginni. Fyrir um átta árum sátum við Jón í eldhúsi fjölskyldu hans í Apple Valley, um 40 þúsund manna borg í úthverfi Minneapolis, þar sem búa um þrjár milljónir manna, og fórum yfir sviðið. Þá dreymdi Jón ekki um að hann ætti eftir að vera flugstjóri í flugvél frá Bandaríkjunum til Íslands en huggaði sig við góðar minningar frá Reykjavíkurflugvelli. „Mig hefur oft dreymt um að fljúga til Íslands en innst inni taldi ég að það myndi aldrei gerast,“ segir hann nú en ítarlegt viðtal er við Jón í Morgunblaðinu í dag.

„Hins vegar get ég ekki leynt því að þegar ég flýg yfir Ísland hugsa ég gjarnan um hvað væri gaman að lenda í Keflavík. Keflavík er varaflugvöllur okkar á leiðinni en vélarnar eru svo fullkomnar að nauðlending er nánast óþekkt vegna bilana og veikist farþegi um borð eru yfirleitt læknar eða hjúkrunarfólk á meðal farþega og því sjaldan röskun á áætluninni. Þó kemur fyrir að vél frá okkur lendir í Keflavík og þá spyrja vinnufélagarnir hver annan hvort John Magnusson hafi verið flugstjóri.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert