Á ekki von á kröfum um aflaheimildir við Ísland

Össur Skarphéðinsson.
Össur Skarphéðinsson. mbl.is/Kristinn

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði í Silfri Egils í dag, að hann yrði hissa ef í aðildarsamningum við Evrópusambandið kæmu fram mjög sterkar kröfur um að sambandið fái aflaheimildir við Ísland. 

„Ég tel að þegar við horfumst í augu yfir samningaborðið um sjó verði það krafan um gagnkvæmar fjárfestingar í sjávarútvegi, sem verði erfiðust," sagði Össur.

Hann sagði að Íslendingar hefðu náð góðum skilningu hjá stórum sjávarútvegsþjóðum eins og Þjóðverjum, Dönum og Portúgölum.

„En það sem ég var hræddastur við var ættum við voru aggressjónir og slagsmál af hálfu Spánverja. En þeir hafa reynst okkur hollir í þessu og fullir skilnings," sagði Össur.

Össur sagði að Íslendingum hefði tekist að koma sjónarmiðum sínum mjög vel á framfæri við Evrópusambandið. Hann sagðist hafa lagt mesta rækt við landbúnaðarmál og sjávarútveg í viðræðum við ráðamenn í Evrópusambandinu og m.a. rætt við alla utanríkisráðherra Evrópusambandsríkja og framámenn í sjávarútvegsmálum í helstu sjávarútvegsríkjum sambandsins.

Fram kom hjá Össuri, að hugsanlega verði hægt að ljúka samningaviðræðunum seint á næsta ári. Hann sagði ekki útilokað, að hægt yrði að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn í lok næsta árs en raunhæfara sé að sú kosning verði síðar eða á árinu 2013.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert