„Hér er bara myrkur“

Öskumistur í Mýrdal í morgun.
Öskumistur í Mýrdal í morgun. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Hér er bara myrkur og það virðist ekki ætla að birta þennan morguninn,“ segir Björgvin Harðarson, bóndi á Hunkubökkum, en gríðarlegt öskufall er á Klaustri og bæjum í kring.

Björgvin sagði að það væri óþægilegt að vera í þessu öskufalli. „Þetta er eins og sementsryk yfir öllu.“

Á Hunkubökkum er stór sauðfjárbú. „Sauðburður er nánast búinn og ég er með um 800 lömb. Lömbin eru bæði úti og inni. Ég hugsa að við reynum að reka meira inn í dag,“ sagði Björgvin. Hann sagði að núna væri hins vegar ekki hægt að smala vegna myrkurs. Menn þyrftu hreinlega ljós til að komast um túnið og það væri ekkert vit að reyna það. Hann sagðist vonast eftir að staðan lagaðast þegar liði á daginn.

Björgvin sagði ljóst að það væri ekki gott fyrir fé að vera út í þessu öskufall og reynt yrði að koma því inn um leið og færi gæfist. Það væri hins vegar erfitt því húspláss væri takmarkað. Hann sagði að það væri logn og kindurnar lægju rólegar og hreyfðu sig lítið.

Nauðsynlegt er fyrir fólk að vera með grímur fyrir vitum. Björgvin sagðist eiga nóg af grímum síðan gaus í Eyjafjallajökli. Hann sagðist ekki hafa upplifað neitt í líkingu við þetta í gosinu í fyrra. Það hefði verið öskufall í nótt, en um sex leytið í morgun hefði nánast tekið fyrir alla birtu.  „Þetta lítur ekki vel út. Maður trúir því varla að það sé ekki bjart úti,“ sagði Björgvin.

Svona blast gosið við frá Höfn í Hornafirði í gær.
Svona blast gosið við frá Höfn í Hornafirði í gær. mynd/Runólfur Hauksson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert