Bitu bréfbera í Mosfellsbæ

Guðrún Hafberg, bréfberi og hundaþjálfari ásamt hundinum sínum Slæðu. Guðrún …
Guðrún Hafberg, bréfberi og hundaþjálfari ásamt hundinum sínum Slæðu. Guðrún mun stýra hundanámskeiði fyrir bréfbera Íslandspósts á höfuðborgarsvæðinu.

Hundar bitu tvo bréfbera Íslandspósts við útburð í Mosfellsbæ í dag. Talsmaður Íslandspóst segir að því miður gerist það nokkuð oft að hundar ógni bréfberum við störf sín. Vill fyrirtækið beina þeim tilmælum til hundaeigenda að þeir haldi hundum sínum innandyra þegar von sé á bréfberum.

Ágústa Hrund Steinarsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandspósts, segir í tilkynningu að  dæmi séu um að hundar séu lausir við heimili sín, bundnir beint innan við hurðir og glefsi í póstinn þegar bréfberar setja hann inn um lúguna.

Íslandspóstur vilji tryggja öryggi starfsmanna sinna. Fram kemur að fyrirtækið hafi unnið í því að fá heimild frá Póst- og fjarskiptastofnun fyrir því að geta krafist þess af hundaeigendum að þeir setji póstkassa sína út að lóðamörkum. Þá væri hægt að koma í veg fyrir mörg slys af þessu tagi.

„Íslandspóstur vill beina þeim tilmælum til hundaeigenda að þeirra viðrögð verði þau að halda hundum sínum  innandyra á þeim tíma sem von er á bréfbera. Ekki er hægt að ætlast til þess að bréfberar fari inn í garða eða að húsum þar sem hundar eru lausir eða bundnir við útidyrahurðir. Þetta er sérstaklega mikilvægt nú þegar mikið af sumarfólki er að koma í vinnu. Í þeim tilfellum þar sem ekki er hægt að bera út vegna hunda á lóðinni er póstur viðkomandi heimilis komið á næsta pósthús þar sem hægt er að nálgast hann. Góð leið til að losna við slík óþægindi er að staðsetja póstkassa sína við lóðamörk,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að Íslandspóstur standi í þessari viku fyrir námskeiðum fyrir bréfbera á höfuðborgarsvæðinu um hvernig best sé að bregðast við ógnun hunda. Slík námskeið hafi verið haldin oft áður og reynst vel og hafi þá bréfberar getað nýtt sér það sem þeir læra á þessum námskeiðum í samskiptum sínum við hunda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert