Óttast ofsóknir í heimalandinu

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins um að synja 43 ára gömlum karlmanni frá Írak um hæli hér á landi.

Segir dómurinn, að ekki hafi verið gengið nægilega úr skugga um það hvort maðurinn hafi réttmæta ástæðu til að óttast ofsóknir í heimaland sínu  snúi hann aftur þangað.

Maðurinn kom hingað í janúar 2008 með flugvél frá Ósló og var þá farangurs- og skilríkjalaus. Hann sagðist vera á flótta undan stríðsástandi og að helmingur stórfjölskyldu hans hafi látið lífið eða horfið í árásum.  Foreldrar hans væru látnir og hann ættii hvorki systkini, maka né börn í heimalandinu.

Hann sagði, að eftir flótta frá Írak hafi hann dvalið í um það bil 15 ár í Líbanon sem ólöglegur innflytjandi og farandverkamaður í land­búnaðar­­­héraðinu Saadnayil. Hann væri óskólagenginn og gæti lesið lítillega í arabísku en ekki skrifað hana.

Hann sagðist síðan hafa óttast um líf sitt í Líbanon. Hann hafi fengið upplýsingar um að Ísland væri friðsælt land og lagt fjármuni til hliðar til að komast hingað. Hann hafi borgað 10.000 Bandaríkja­dali fyrir ferðina. Hann hafi farið á einum degi ásamt fylgdarmanni með flugi frá Líbanon til Bret­lands og þaðan áfram til Ósló. Þar hafi fylgdarmaðurinn orðið eftir ásamt skil­ríkjum.

Maðurinn sagðist hafa verið á flækingi fyrstu nóttina á Íslandi en gefið sig fram við lögreglu daginn eftir.

Hann hefur dvalið á gistiheimili í Reykjanesbæ undanfarin misseri. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert