Ekki pantað hjá Jóhönnu

Jón Steinsson.
Jón Steinsson. mbl.is

Jón Steinsson, lektor við Columbia-háskóla í New York, kveðst hafa unnið álit um kvótafrumvarp Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að eigin frumkvæði. Því sé það rangt sem haldið er fram að forsætisráðuneytið hafi óskað eftir álitsgerðinni.

Talsvert hefur verið fjallað um álitsgerðina á vefnum og má nefna að á Eyjunni sagði orðrétt að Jóni litist í „heildina fremur illa á ný kvótafrumvörp Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegsráðherra, í nýju áliti sem forsætisráðuneytið óskaði eftir“.

Þiggur yfirleitt ekki greiðslur

Inntur eftir þessum ummælum svarar Jón því til að hann hafi unnið álitið, sem má nálgast hér, í eigin rannsóknartíma og án þess að þiggja fyrir það þóknun.

„Þetta er mín umsögn um frumvarpið. Ég sendi hana síðan til Alþingis. Skrif á netinu um að álitið hafi verið pantað af forsætisráðherra eru úr lausu lofti gripin. Ég fékk ekkert greitt fyrir þetta og oftast nær fæ ég ekkert greitt fyrir það sem ég skrifa og varðar Ísland.

Það heyrir til undantekninga að ég taki greiðslu fyrir það sem ég skrifa um Ísland. Það er fyrst og fremst vegna þess að ég er fræðimaður og er á ágætum launum við það. Ég þarf ekkert að binda mig við að fá greitt fyrir aðra vinnu. Maður hefur frjálsari efnistök ef maður þiggur ekki greiðslur svo það hefur sína kosti.“

Jón lét þau orð falla í vefpistli að hann teldi að breytingar á kvótakerfinu myndu leiða til aukinnar hagkvæmni í greininni. Hann kveðst ekki jafn sannfærður um þá skoðun nú eftir að hafa séð frumvarp Jóns Bjarnasonar.

Ýmislegt kom á óvart við lesturinn

En hvað finnst Jóni um frumvarpið?

„Það var ýmislegt sem kom mér á óvart við lesturinn. Það var þess vegna sem ég lagði talsverða vinnu í að skrifa þessa umsögn. Frumvarpið er nokkuð flókið og það tók mig svolítinn tíma hvaða áhrif það hefði. Það var ýmislegt slæmt í frumvarpinu eins og kemur fram í umsögninni hjá mér en annað ekki jafn slæmt og ég hélt í fyrstu.

Þar eru mikið af ákvæðum sem gefa ráðherra vald til þess að haga stjórn fiskveiða eftir sínu höfði, að því er virðist vera. Það kom mér líka á óvart og var á meðal þess sem mér fannst slæmt við frumvarpið [...] Ég held að frumvarpið yrði ekki til bóta hvað varðar hagkvæmni en það er erfitt að spá frekar fyrir um það.“

Má geta þess að lokum að Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, fullyrti í samtali við mbl.is fyrr í dag að forsætisráðuneytið hefði ekki óskað eftir áliti Jóns. Það hefði hins vegar fengið Þórólf Matthíasson prófessor til að vinna álitsgerð.

Þá kom fram í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins að það hefði óskað eftir áliti hvorugs þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert