Hreint og strokið á Klaustri

Mikið var um að vera á Kirkjubæjarklaustri og í nærsveitum í dag, þar sem tugir sjálfboðaliða og slökkviliðsmanna tóku til hendinni við þrif bæði innanhúss og utan.

Meðal annars kom galvaskur 23 manna hópur endurskoðenda frá  KPMG og þreif allt hátt og lágt í íþróttahúsinu og á dvalarheimili aldraðra. Í morgun voru veggir og gólf grá af ösku, en eftir hádegið voru þrifin langt komin.

Tuttugu manna hópur kom frá iðnaðarráðuneytinu til að þrífa á þremur hótelum á svæðinu, meðal annars Hótel Klaustri og greip Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra sér tusku í hönd og tók til hendinni.

Búist er við því að barnaskólinn og sundlaugin verði opnuð eftir helgi, en leikskólinn var opinn í dag og einn nemandi mætti til starfa. Félagar úr björgunarsveit skáta í Garðabæ voru í óðaönn við að þrífa sundlaugina á Klaustri þegar blaðamenn mbl.is bar að garði.

Útlit er því fyrir að Skaftfellingar verði fljótir að ná sér á strik eftir gosið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert