Icesave-lögin frá 2009 verði felld úr gildi

Samþykkt var einróma á fundi fjárlaganefndar Alþingis í dag að leggja til að frumvarp þingmanna Framsóknarflokksins, þess efnis að lög nr. 96/2009 yrðu felld úr gildi, verði samþykkt. Tveir nefndarmanna, þau Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingarinnar, voru fjarstödd.

Fram kemur í áliti fjárlaganefndar að nokkur umræða hafi skapast innan hennar um  8. grein laganna sem kveður á um endurheimtur á innistæðum en mat nefndarinnar hefði verið að ekki væru forsendur til þess að hún ein héldi gildi sínu.

Frumvarpið var lagt fram í byrjun þessa mánaðar af þingflokki Framsóknarflokksins en samkvæmt því verða fyrstu Icesave-lögin sem samþykkt voru á Alþingi í lok sumars 2009 felld úr gildi. Í þeim fólst samþykki þingsins á fyrstu Icesave-samningunum með ákveðnum einhliða fyrirvörum sem bresk og hollensk stjórnvöld reyndust síðar ekki reiðubúin að fallast á.

Til stóð að lög nr. 96/2009 yrðu felld úr gildi með Icesave-lögunum sem hafnað var í þjóðaratkvæðagreiðslunni í apríl síðastliðnum en þar sem þau lög voru felld í henni héldu lög 96/2009 áfram gildi sínu. Ætlunin nú er að fella þessi lög úr gildi með sérstakri lagasetningu.

Nefndarálit fjárlaganefndar Alþingis

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert