Bankarnir skoði hvort þeir geti gengið lengra

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Ómar

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagðist á Alþingi í dag fagna þeim aðgerðum, sem Landsbankinn kynnti í gær og nýtast skuldugum viðskiptavinum bankans. Jóhanna sagðist vilja hvetja aðra banka til að skoða það hvort þeir geti gert meira fyrir skuldug heimili.  

Jóhanna var að svara fyrirspurn frá Jóni Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks, sem vildi vita hvort ríkisstjórnin myndi beita sér fyrir því að aðrir bankar og lánastofnanir, þar á meðal Íbúðalánasjóður, grípi til samskonar aðgerða og Landsbankinn.

Forsætisráðherra sagði að ríkisstjórnin gæti ekki beitt handafli á einkabanka. Þá stæði Íbúðalánasjóður ekki vel og tæpast væri á hann leggjandi, að fara lengra í þessum málum. Ríkið hefði þurft að leggja Íbúðalánasjóði til háar fjárhæðir og verði gengið lengra þar komi það niður á velferðarkerfinu.

Jóhanna sagðist hvetja fólk til að nýta þau úrræði sem þegar eru fyrir hendi og sagði þau hafa nýst mörgum, sem töldu sig vera komna fram á bjargbrúnina. Sagði Jóhanna að 2400 hefðu sótt um greiðsluaðlögun og 600 hefðu þegar fengið úrlausn sinna mála.

„Þar hefur verið um verulegar afskriftir að ræða og ég þekki margt fólk, sem taldi sig vera komið á ystu nöf og þurfa að selja íbúðir sínar á uppboði þegar þeim var bent á greiðsluaðlögunina. Þegar það fór í hana bjargaði það heimilunum," sagði Jóhanna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert