Neyddu mann til fjárútláta

Dómssalur í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Dómssalur í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 45 ára gamlan karlmann í 18 mánaða fangelsi, meðal annars fyrir rán og frelsissviptingu. Maðurinn og tveir aðrir neyddu meðal annars annan mann með ofbeldi til að millifæra peninga yfir á reikning eins þeirra.

Samkvæmt ákæru sviptu þremenningarnir fjórða manninn frelsi á heimili hans við Hringbraut í Reykjavík í desember 2009. Beittu þeir húsráðanda ofbeldi í því skyni að ná frá honum verðmætum. Þeir slógu manninn  í andlit, tóku hann hálstaki, fjötruðu hendur hans og tróðu tusku upp í munn hans og kefluðu hann.

Neyddu þeir manninn til að millifæra 110 þúsund krónur af reikningi sínum yfir á reikning eins mannsins  auk þess sem þeir söfnuðu verðmætum í íbúðinni,  m.a. 80.000 krónum í peningaseðlum. 

Sá mannanna, sem dæmdur var nú, var einnig fundinn sekur um að hafa tekið bíl í heimildarleysi og sett  á hana skráningarmerki, sem hann stal af öðrum bíl. Maðurinn, sem var þá undir áhrifum amfetamíns, ók síðan um götur borgarinnar þar til lögreglan stöðvaði hann.

Fram kemur í dómnum, að fá árinu 1990 hafi maðurinn hlotið fimmtán refsidóma og þrívegis gengist undir sektargreiðslur hjá lögreglustjóra fyrir líkamsárásir, auðgunarbrot, húsbrot, hótanir, brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlagabrot.

Á árinu 2009 var hann meðal annars dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir rán, stórfellda líkamsárás, tíu þjófnaðarbrot, hylmingu, fjársvik og fíkniefnalagabrot, auk þess að hafa í fimm skipti ekið bifreið óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. 

Maðurinn játaði sök greiðlega. Hann var einnig dæmdur til að greiða manninum, sem hann misþyrmdi, 450 þúsund krónur í bætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert