Ágreiningur um kvóta vex

mbl.is

Ástandinu á stjórnarheimilinu, einkum á milli þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra, verður ekki beinlínis lýst sem friðsamlegu þessa dagana og mun ágreiningurinn þeirra í milli bara hafa aukist og dýpkað að undanförnu.

Forsætisráðherra hótar sumarþingi í júnílok, verði frumvörp sjávarútvegsráðherra ekki afgreidd fyrir sumarhlé þingsins, en sjávarútvegsráðherra segir að málið sé ekki lengur í sínum höndum, heldur Alþingis. „Ég er búinn að afgreiða málið. Frumvörpin voru afgreidd samhljóða úr ríkisstjórn og fóru þaðan til þingflokka ríkisstjórnarinnar... Framvinda málsins er í höndum Alþingis,“ sagði sjávarútvegsráðherra í samtali við Morgunblaðið í gær.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins frá stjórnarandstöðuþingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og ákveðnum stjórnarþingmönnum, bæði úr röðum Samfylkingarinnar og VG, er mjög ólíklegt að fiskveiðistjórnunarfrumvörp sjávarútvegsráðherra njóti óbreytts stuðnings meirihluta þingmanna. Mikillar andstöðu gætir við frumvörpin hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. A.m.k. tveir þingmenn Samfylkingarinnar samþykktu frumvörpin í þingflokknum með ákveðnum fyrirvörum, þeir Kristján Möller og Sigmundur Ernir Rúnarsson, og líklega hafa fleiri þingmenn Samfylkingar ákveðnar efasemdir um ágæti frumvarpanna.

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, er sögð andvíg því að haldið verði sérstakt sumarþing til þess að afgreiða kvótafrumvörpin. Hún vilji halda sig við starfsáætlun þingsins.

Rætt er um að ef forsætisráðherra heldur sumarþingsáformum sínum til streitu, þvert á vilja meirihluta þingheims, komi til greina að forseti þingsins fari í snemmbúið sumarfrí og verði því ekki viðstödd sumarþingið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert