Kvótamálin í þjóðaratkvæði

Jóhanna Sigurðardóttir og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir á fundinum í Garðabæ …
Jóhanna Sigurðardóttir og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir á fundinum í Garðabæ í dag. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, segir það ótrúlega ósvífni af hálfu LÍÚ að hóta því að kjarasamningarnir gildi aðeins til áramóta en ekki í þrjú ár, verði sjávarútvegsmálin ekki í ásættanlegu horfi fyrir samtökin þann 22. júní.

Jóhanna sagði á flokkstjórnarfundi í dag að ekki væri hægt að líða slíka ósvífni. Allir þurfi því að leggjast á eitt til að ná metnaðarfullum markmiðum varðandi þróun verðlags, gengis og hagvaxtar sem kjarasamningarnir byggjast á.

Hún bendir á að breyting á sjávarútvegsmálum sé eitt af stóru málunum framundan. 

Hún segir að með frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingarnar, sem feli í sér að allar aflaheimildir verði innkallaðar og þeim síðan endurúthlutað, sé verið að opna kerfið sem hafi verið sniðið að sérhagsmunum kvótahafa.

Jóhanna ítrekar að það sé mikilvægt að stjórnarflokkarnir nái þessu stóra máli fram. Hins vegar muni sjálfstæðismenn, sem málsvarar LÍÚ, gera allt sem í þeirra valdi standi til að koma í veg fyrir það nú í þinglok.

„Ég vil ítreka hér, það sem flokksstjórnarfundur hefur áður samþykkt og ég tel að vilji sé til þess innan Samfylkingarinnar að setja ætti þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu,“  sagði Jóhanna við fögnuð fundarmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert