Vildu fá Jóhönnu og Steingrím

Kvöldfundur stendur yfir á Alþingi.
Kvöldfundur stendur yfir á Alþingi.

Stjórnarandstaðan kallaði í kvöld eftir því að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra væru viðstaddir umræðu um frumvarp um stjórn fiskveiða.

Samþykkt var fyrr í dag að halda kvöldfund til að ræða frumvarp Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu eðlilegt að forystumenn ríkisstjórnarinnar, sem bæru ábyrgð á málinu, væru viðstaddir umræðuna.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði að forsætisráðherra væri vant við látin og hún hefði óskað eftir að hann væri viðstaddur umræðuna fyrir sína hönd. Jón Bjarnason var einnig viðstaddur umræðuna.

Helgi Hjörvar alþingismaður hvatti þingmenn til að ræða efnislega um frumvarpið. Ef mikill tími færi í umræðu um fundarstjórn forseta þyrfti að lengja umræðuna fram í sumarið.

Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður sagði að frumvörpin væru vanbúin og vegna þessa þá kölluðu þau á mikla umræðu. Hann sagðist gera sér vonir að hægt væri með ítarlegri umræðu að bæta frumvörpin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert