Stoðunum kippt undan landsbyggðinni

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is / Heiðar Kristjánsson

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að með frumvörpum ríkisstjórnarinnar um breytingar á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu verði stoðunum kippt undan atvinnulífinu á landsbyggðinni. Þetta kom fram í ræðu hans á Alþingi rétt í þessu.

Höskuldur sagði að í sjávarbyggðum landsins skiptu sjávarútvegsfyrirtækin grundvallarmáli í atvinnulífinu. Hann tók kjördæmi sitt sem dæmi, Norðausturkjördæmi, og sagði hljóðið þungt í forsvarsmönnum sjávarútvegsfyrirtækja í kjördæminu. Því væri haldið fram að yrðu frumvörpin að lögum legðist fiskvinnsla af á sumum af sjávarbyggðunum.

Hann gagnrýndi harðlega að frumvörp ríkisstjórnarinnar hefðu verið lögð fram á Alþingi áður en úttekt hefði verið gerð á því hvaða áhrif samþykkt þeirra hefði á atvinnulífið á landsbyggðinni.

Þá sagði hann að frumvörpin stuðluðu ekki að því að ný störf yrðu til í sjávarútvegi heldur væri aðeins um það að ræða að störf væru tekin af þeim sem í dag stunduðu sjávarútveg, hvort sem það væru sjómenn eða fiskverkafólk í landi, og færa þau einhverjum öðrum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert