Búið að finna þá sem soga til sín hagvöxtinn

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í dag að búið væri að finna þá sem soguðu til sín hagvöxtinn á Íslandi. Það væru kröfuhafar íslensku bankanna.

Verið er að fjalla um skýrslu fjármálaráðherra um skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna. Sagði Bjarni, að ríkisstjórnin hefði búið svo um hnútana í samskiptum við eigendur gömlu bankanna, að allur mögulegur ávinningur, sem hljótist af starfsemi nýju bankanna, renni meira eða minna óskiptur inn í þrotabú gömlu bankanna.

Þá sagði Bjarni, að enginn virtist taka ábyrgð á stjórn og rekstri bankanna. Hvorki ráðherrar né bankasýslan hefðu með þá að gera.

„Það er enginn sem er tilbúinn til að svara fyrir bankana. Þar situr fólk, sem velst til þess að sitja í stjórnum, sumir koma frá útlöndum, aðrir eru mikilsmetandi og hæfir einstaklingar í íslensku samfélagi en tekur einhver ábyrgð á rekstrinum? Nei," sagði Bjarni.

Hann sagði að hraða þurfi sem allra mest uppgjöri þrotabúanna, helst með nauðasamningum, þannig að hlutur þrotabúanna í íslensku bönkunum fari frá þessum óskilgreindu eigendum í hendur framtíðar eignarhalds. „Við þurfum eigendur sem taka ábyrgð á rekstrinum og sjá að þeirra hagsmunir liggja með fólkinu í landinu og fyrirtækjunum," sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert