Eggjataka og veiðar verði takmörkuð

Svandís Svavarsdóttir,  umhverfisráðherra, hefur beint þeim tilmælum til landeigenda og handhafa hlunnindakorta að eggjataka og hlunnindaveiðar á svartfugli í sumar verði takmarkaðar eða felldar niður á þessu ári vegna lélegs ástands fuglastofnanna og fæðubrests undanfarin ár.

Ráðuneytið segir, að frekari aðgerðir verði skoðaðar í kjölfarið í samráði við vísindamenn, stofnanir og hagsmunaaðila til þess að tryggja betri viðgang sjófuglastofna og sjálfbærar veiðar á þeim.

Þá hefur Svandís ákveðið, í kjölfar ábendingar frá Fuglavernd og á grundvelli upplýsinga um lélegt ástand margra sjófuglastofna, að skoða hvort ástæða sé til þess að takmarka veiðitíma á lunda og fleiri tegundum svartfugla á vorin.

Veruleg fækkun hefur verið í nokkrum stofnum sjófugla og segja má að hrun hafi verið í lundastofninum. Lélegur varpárangur hefur verið hjá lunda, sérstaklega á sunnanverðu landinu, sl. 4-5 ár og í fyrra varð algjör viðkomubrestur í lundavarpi á Suðurlandi. Stuttnefju hefur fækkað um allt land og álku og langvíu um sunnan- og vestanvert landið, en stofnar þeirra hafa haldið nokkuð í horfinu um norðanvert landið.

Orsakir fækkunar og viðkomubrests sjófugla virðast að mestu leyti vera vegna fæðuskorts, en fuglarnir lifa einkum á sandsíli og loðnu. Hrun varð á sandsílastofninum árið 2000 og hefur hann ekki náð sér á strik síðan. Loðnustofninn hefur verið í lægð sl. áratug og breytingar hafa verið á göngumynstri loðnunnar. 

Frekari aðgerðir til að verndunar stofnum svartfugla eru í skoðun, s.s. að setja reglur um hlunnindaveiði og nýtingu að sumarlagi, stækka verndarsvæði í kringum fuglabjörg og heimila ekki söfnun eggja til dýragarða. Einnig verður skoðað hvort ástæða sé til þess að takmarka veiðitíma annarra tegunda sjófugla, en heimilt er nú að veiða fýl, dílaskarf, hettumáf, hvítmáf, ritu og toppskarf frá 1. september til 15. mars.

Vilja ekki leyfa lundaveiði

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert