Málsvörn til stuðnings Geir

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætis- og fjármálaráðherra.
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætis- og fjármálaráðherra. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Opnuð hefur verið vefsíða stuðningsmanna Geirs H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra vegna réttarhalda sem bíða hans fyrir landsdómi. Stuðningsmennirnir hafa jafnframt stofnað félagið Málsvörn.

Tilgangurinn er að safna fé til að standa straum af málsvörn Geirs og veita honum stuðning.

Á heimasíðu félagsins segir að  yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar telji þessa ákvörðun Alþingis ranga, meðal þeirra séu stofnendur Málsvarnar, sem eru vinir og velunnarar Geirs

Þar segir enn fremur að megintilgangur félagsins sé að safna fé til að standa straum af kostnaði við málsvörnina og tryggja að hann standi sem næst jafnfætis ríkisvaldinu í málsvörn sinni.

Ábyrðgarmenn söfnunarinnar eru Pétur J. Eiríksson, framkvæmdastjóri,
Anna Kristín Traustadóttir, löggiltur endurskoðandi og Gísli Baldur Garðarsson, lögfræðingur.

„Kostnaður ríkisins við saksóknina mun hlaupa á tugum milljóna. Ekki er hægt að gera ráð fyrir öðru en að kostnaður við að halda uppi eðlilegum vörnum, miðað við þann þunga sem lagður er í saksóknina, verði mjög mikill, sérstaklega ef landsdómur fellst á kröfu Alþingis um að Geir greiði allan sakarkostnað, “ segir á síðunni.

Síða Málsvarnar


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert