Segja aflaheimildir á Vestfjörðum skerðast um 3700 lestir

Frá Bíldudal.
Frá Bíldudal. mbl.is/Árni Sæberg

Útvegsmannafélag Vestfjarða segir, að úttekt þess á áhrifum kvótafrumvarpa ríkisstjórnarinnar sýni, að aflaheimildir á Vestfjörðum muni skerðast um 3700 þorskígildistonn þegar lögin verða komin að fullu til framkvæmda.

Þetta jafngildi samanlögðum aflaheimildum Drangsness, Bíldudals, Hólmavíkur, Tálknafjarðar, Brjánslækjar og Suðureyrar.

Þá segir félagið, að sjómenn  á Vestfjörðum séu alls um 400 og fiskverkafólk alls um 460 talsins. Verði frumvörpin verða að lögum blasi við að þá tapist alls um 100 störf, þar af 45-50 hálaunastörf til sjós og um 50 störf í fiskvinnslu. 

Í tilkynningu frá félaginu, sem Einar Valur Kristjánsson, formaður þess, skrifar undir, segir að óvissa í sjávarútvegi á Vestfjörðum muni aukast og sé hún þó veruleg fyrir. Aflaheimildir verði teknar í stórum stíl af sjávarútvegsfyrirtækjum til að setja í „potta“ handa stjórnmálamönnum að úthluta úr.

„Vestfirðingar hafa ekki góða reynslu af pólitísku úthlutunarfyrirkomulagi Reykjavíkurvaldsins, hvort heldur horft er til samgöngumála, byggðakvóta eða fjárveitinga vegna stofnana ríkisins," segir í tilkynningunni. „Kaldar kveðjur og nístandi óvissa er sendingin úr Stjórnarráðinu fyrir sunnan í tilefni sjómannadagsins og með fylgja loforð um að lögfesta bæði fækkun starfsfólks og kjaraskerðingu í sjávarútvegi. Þetta er dapurlegt og sannarlega allt annað en atvinnulíf og launafólk á Vestfjörðum þarf á að halda á erfiðum tímum."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert