Fyrstu pólitísku réttarhöldin

Geir H. Haarde á blaðamannafundinum í dag.
Geir H. Haarde á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Kristinn

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði á blaðamannafundi í dag, að þingfesting máls Alþingis gegn sér í landsdómi á morgun jafngildi því að fyrstu pólitísku réttarhöldin séu að hefjast á Íslandi.

„Í ljósi alls þessa má segja að það fari ekki illa á því að það skuli vera þeir Atli Gíslason, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson ásamt fylgdarliði sem ábyrgð bera á fyrstu pólitísku réttarhöldunum á Íslandi," sagði Geir m.a.

Geir sagði, að þetta væri pólitísk atlaga og valdhafar landsins séu að beita öllum mögulegum ráðum til að ná sér niðri á pólitískum andstæðingi. Þá lýsti Geir þeirri skoðun, að Alþingi hefði misbeitt valdi sínu með því að samþykkja nýlega lög þar sem umboð tiltekinna dómara í landsdómi var framlengt í þessu máli.

Geir sagðist ekki ætla að tjá sig um einstaka ákæruliði fyrr en fyrir landsdómi. „En ég get sagt það strax, og það mun ég gera í réttarhaldinu á morgun, að ég vísa þessum ákæruatriðum á bug sem fráleitum," sagði Geir.

Sagði hann m.a. að komið hefði í ljós,  að ákvarðanir sem ríkisstjórn hans bar ábyrgð á í aðdraganda bankahrunsins, voru réttar og hefðu komið miklu betur út fyrir efnahag landsins, en það sem ríkisstjórnir í öðrum löndum voru margar að bauka við á þessum tíma.

Ætti að vísa ákærunni sjálfkrafa frá

Geir sagði, að  hann hefði velt því fyrir sér hvort hann ætti ekki að láta málið ganga á enda, yfirheyra 60-80 vitni, stoppa öll önnur mál í Hæstarétti vikum saman og knýja síðan fram sýknu. Hann sagðist þó engu að síður telja það skyldu sina, að láta á það reyna hvort hægt sé að bjóða dómstólum upp á ákæru í því formi, sem hún er. Sagðist Geir raunar telja, að landsdómur ætti að vísa málinu frá sjálfkrafa.

Geir sagðist hafa upplýsingar um að málið gæti dregist á langinn og að ekki verði hægt að taka fyrir frávísunarkröfu hans í dómnum fyrr en í september. Hann sagði jafnframt, að óhóflegar og ástæðulausar tafir hefðu orðið á málsmeðferðinni allri og það brjóti að hans mati í bága við ákvæði landsdómslaga.

Geir sagði,  að ákæruskjalið væri meira og minna samhljóða þeirri ályktun sem Alþingi samþykkt sl. haust. Þá hefðu verið lagðar fram 3700 blaðsíður af fylgiskjölum. Geir sýndi skjalamöppur og sagði að þeim væri að finna aragrúa af skjölum, þar á meðal heilu skýrslurnar frá erlendum matsfyrirtækjum, erlendum stofnunum og ræðu sem Geir flutti í Bergen árið 2007. Sagðist Geir ekki skilja hvað margt í þessum möppum ætti skylt við málið.

En verra væri, að greinargerð vantaði með ákærunni og engin grein væri gerð fyrir því hvaða þýðingu þessi skjöl hefðu fyrir rekstur málsins. Enginn rökstuðningur væri fyrir ákærunni og því ekki heiglum hent að ætla að verjast ákæru sem erfitt væri að sjá á hverju hún byggði.

Við ofurefli að etja

Geir sagði, að óhóflegar tafir á málsmeðferðinni hefðu valdið gríðarlegum kostnaði, bæði fyrir ríkið, sem sækti málið af miklum þunga, og fyrir hann sjálfan sem sakborning.  Í raun væri við ofurefli að etja og dýrt að hafa góða lögmenn í sinni þjónustu. 

Geir sagði, að hann og Andri Árnason, lögmaður hans, hefðu byggt upp teymi lögfræðinga og sérfræðinga. Einnig gerði Alþingi kröfu um að hann greiddi allan sakarkostnað og það þýddi að hann þyrfti að búa sig undir mikil útgjöld. Því hefði sú leið verið farin að því að safna liði og nokkrir stuðningsmenn hans hefðu opnað vefsíðuna málsvörn.is þar sem safnað er fé til málsvarnar Geirs. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert