Óskar eftir upplýsingum um aðgerðir

Steingrímur J. Sigfússon í ræðustóli á Alþingi.
Steingrímur J. Sigfússon í ræðustóli á Alþingi. mbl.is/Kristinn

Fjármálaráðherra mun óska eftir upplýsingum frá Landsbankanum um aðgerðir hans í þágu skuldara, sér í lagi um skuldaniðurfellingu og hvort hún fari út fyrir ramma um að almennt sé niðurfelling skulda skattfrjáls. Þetta sagði ráðherrann á Alþingi í dag.

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, út í aðgerðirnar og benti á að ríkið eigi bankann í gegnum Bankasýsluna. Pétur sagði bankann leika Hróa hött með aðgerðum sínum og spurði hvort ábyrgðin lægi hjá ráðherra, og hvort hann hafi komið að ákvörðuninni.

Steingrímur sagði, að Pétri ætti að vera kunnugt um fyrirkomulag eignarhlutans, að ráðherra komi ekki nálægt daglegum rekstri og megi það ekki samkvæmt lögum. Þá sagði hann ráðuneytið ætla að óska eftir upplýsingum um aðgerðirnar.

Pétur spurði einnig út í áhrifin á önnur fjármálafyrirtæki, s.s. Íbúðalánasjóð. Steingrímur sagði að betra væri að varast að draga samjöfnuð við sjóðinn enda séu þarna um skuldir að ræða af öðrum toga en aðeins húsnæðislán. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert