„Skýrslan var aðalheimildin“

Geir H. Haarde á blaðamannafundinum í dag.
Geir H. Haarde á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Kristinn

Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á blaðamannafundi í dag að aðalheimild þingmannanefndarinnar svokölluðu hefði verið rannsóknarskýrsla Alþingis. 

„Nefndin, sem bar þessa miklu ábyrgð, rannsakaði ekki málið með sjálfstæðum hætti. Það hefði til dæmis verið hægt að gera með því að yfirheyra ráðherrana og nota aðrar aðferðir, sem tíðast við rannsóknir mála, en það var ekki gert,“ sagði Geir.

Hann sagði nefndina hafa spurt sig tiltekinna spurninga, en síðan ákveðið að hafa svör sín  að engu.

„Þetta stríðir gegn viðteknum venjum um ákærur í sakamálum,“ sagði Geir og bætti því við að þetta athafnaleysi nefndarinnar væri að sínu mati vítavert.

Hann sagði málið hneisu fyrir Alþingi, það setti blett á ríkisstjórnina og verið væri að nota Alþingi til að koma höggi á einn mann. „En mér sýnist að nokkrir af höfuðpaurunum séu komnir með bakþanka,“ sagði Geir og vísaði þar til ummæla Steingríms J. Sigfússonar og Atla Gíslasonar í fjölmiðlum.

Réttarhöldin hefjast á morgun klukkan 14 í Þjóðmenningarhúsinu. Að sögn Geirs er kostnaður hans nú þegar orðinn um níu milljónir króna, þó þau séu ekki enn hafin.

Fyrir utan það segir hann málið hafa valdið sér mannorðshnekki, fyrst og fremst erlendis. „Ég held að flestir hér á landi geri sér grein fyrir að þetta er pólitískur skrípaleikur. En fréttir af þessu fara út um allan heim, fólk sér að það er búið að draga þennan mann fyrir dómstól. Fólk les fyrirsagnir og heldur að um ótíndan glæpamann sé að ræða.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert