Þorskkvóti eykst samkvæmt veiðireglu

Aflamark í þorski eykst um 17 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári, úr 160 þúsund tonnum í 177 þúsund tonn, ef miðað er við aflareglu sem gilt hefur undanfarin ár.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hafrannsóknastofnunar um nytjastofna sjávar, sem verið er að kynna í dag. Stofnunin leggur hins vegar til, að ýsukvóti verði minnkaður úr 50 þúsund tonnum í 37 þúsund tonn. 

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, sagði á blaðamannafundi þar sem skýrslan var kynnt, að hrygningarstofn þorsks hafi verið að vaxa, eins og stefnt var að með aðgerðum stofnunarinnar, og aldursbreiddin sömuleiðis.

„Að öllum líkindum munum við fá, þegar fram líða stundir, röð af sterkari árgöngum," sagði Jóhann. Hann sagði, að hlutfall stærri fisks í stofninum hefði vaxið verulega.

Fram kom á fundinum að veiðihlutfall hefði lækkað úr 40% af veiðistofni árið 2000 í 20% á síðasta ári og hefði veiðidánartala ekki verið lægri síðan 1960. Þetta gerði það að verkum að árgangar entust lengur í stofninum og hlutfall eldri fisk í afla fari vaxandi. Haldi þessi þróun áfram og miðað verði við 20% aflareglu eins og nú er gert, séu líkur á að aflamarkið gæti orðið 220-250 þúsund tonn árið 2016.

Þá sagði Jóhann greinilegt, að fiskurinn hefði nóg að éta og hann þyngdist vel. Þetta helgaðist væntanlega af því að úr meiri fæðu væri að spila fyrir þorskinn. 

Þorskaflinn á síðasta ári var 169 þúsund tonn og sagði Jóhann að það stafaði m.a. af afla útlendinga, rannsóknarafla, fiskeldisafla, strandveiða og tegundatilfærslu milli ára sem bættist ofan á aflamarkið. Jóhann sagði, að Hafrannsóknastofnun hefði gagnrýnt þetta.

Vilja aflareglu fyrir ýsu og ufsa

Jóhann sagði, að Hafrannsóknastofnun væri að undirbúa tillögu til sjávarútvegsráðherra um að tekin verði upp aflaregla fyrir ýsu og ufsa líkt og gildir um þorsk.

Aflamark í ufsa er 50 þúsund tonn á yfirstandandi fiskveiðiári en Hafrannsóknastofnun leggur til að aflamarkið verði 40 þúsund tonn á næsta fiskveiðiári.

Skýrsla um ástand nytjastofna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert