Trúverðugleiki Íslands á uppleið

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að trúverðugleiki Íslands á alþjóðavettvangi sé á uppleið „enda mátti hann við því."

Steingrímur var að svara fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þingmanni Framsóknarflokks, um flutning skattskyldrar starfsemi úr landi. Sagði Sigmundur Davíð að viðvarandi óvissa um hvert stefndi með íslenska skattkerfið hrekti fyrirtæki og aðra skattgreiðendur úr landi á sama hátt og Íslendingar forðuðu sér á sínum tíma frá Noregi og stofnuðu Ísland.

„Það er alveg rétt að í mælingum á samkeppnishæfni skorum við ekki hátt á mælikvarða efnahagsstjórnar (...) En skyldi það ekki geta verið vegna þess að hér var eitt allsherjarhrun? Auðvitað lækkar trúverðugleikinn við það," sagði Steingrímur.

Hann sagði að verkefni stjórnvalda væri að vinna sig aftur upp þennan lista og trúverðugleiki landsins væri að aukast. Ísland fengi mun jákvæðari umsagnir en áður, þar á meðal í starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem kom út í vikunni, og í væntanlegri skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, sem fjármálaráðuneytið hefði fengið að sjá í drögum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert