Fréttaskýring: Bílaleigurnar bestu vinir bílasalanna

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hafði orð á því í eldhúsdagsumræðunum á Alþingi í vikunni að bílakaup landsmanna væru að glæðast, er hann taldi upp ýmis teikn á lofti um betri tíma í þjóðfélaginu. Vísaði hann til fregna af nýskráningum bifreiða, sem voru um 2.200 fyrstu fimm mánuði ársins borið saman við 997 eftir sama tíma í fyrra. Er þetta 120% aukning frá fyrra ári.

En hvað er á bak við þessar tölur? Er almenningur farinn að kaupa nýja bíla í stórum stíl? Við nánari skoðun kemur í ljós að svo er ekki að öllu leyti. Að stærstum hluta eru þetta bílaleigubílar sem halda uppi bílasölunni í landinu, eða eins og einn bílasali orðaði það við blaðið: Bílaleigurnar eru okkar bestu vinir í dag!

Af um 2.200 nýskráningum frá janúar til maí sl. eru ríflega 1.900 fólksbílar, eða 1.890 nýir og 146 bílar fluttir inn notaðir. Af þessum 1.890 nýju fólksbílum voru seldir 1.075 bílaleigubílar eða 57% af allri sölu á nýjum fólksbílum, samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu.

Ef eingöngu er skoðaður maímánuður, sem er helsti skráningarmaður ársins hjá bílaleigum, þá keyptu bílaleigurnar 814 bíla af 1.062 fólksbílum skráðum í þeim mánuði, eða 77%. Í sama mánuði í fyrra keyptu bílaleigurnar 305 fólksbíla af 790 seldum þann mánuðinn, eða 38%.

Kaupa af brýnni nauðsyn

„Þetta væru ansi daprar tölur ef þeirra nyti ekki við,“ segir Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, um hlut bílaleignanna í bílasölu. Hann segir þær hafa haldið uppi markaðnum eftir hrunið og hlutur þeirra af allri bílasölu aldrei verið meiri en í ár. En Özur bendir jafnframt á að bílaleigubílarnir skili sér út á markaðinn síðar.

Að bílaleigum frátöldum segir Özur að bílakaup almennings séu heldur að glæðast síðustu mánuði en það skýrist fyrst og fremst af brýnni nauðsyn. Fólk þurfi að endurnýja bíla sína eins og bílaleigurnar en það velji þá frekar notaða bíla en nýja. Hins vegar sé mikill skortur á góðum notuðum bílum. „Markaðurinn æpir á nýja bíla, flotinn er orðinn það gamall hér á landi,“ segir Özur og bendir á að þrír árgangar af nýjum bílum hafi eiginlega horfið, frá 2008 til 2010.

Breytingar voru gerðar á skattlagningu bifreiða um síðustu áramót, sem höfðu þau áhrif að ákveðnar bíltegundir lækkuðu í verði, einkum smærri bílar og umhverfisvænir. Özur segir þessar breytingar hafa dugað skammt. Mikið skorti á að gera fólki auðveldara að endurnýja fjölskyldubílinn. Miðlungsstórir bílar og jeppar hafa í mörgum tilvikum hækkað verulega í verði.

Bílgreinasambandið hefur hamrað á því að það sé umhverfis- og öryggismál að gera fólki kleift að endurnýja bíla sína. Öryggisbúnaður og vélar hafa tekið stökkbreytingum, þar sem bílaframleiðendur keppast við að framleiða vélar sem eyða sem minnstu og menga sem minnst. „Á meðan erum við hér heima á Íslandi að púkka upp á gömlu drusluna til þess að halda henni gangandi sem lengst þar sem við höfum ekki efni á að endurnýja þessa tækni,“ segir Özur.

Stærsta bílaleigan á markaðnum er Bílaleiga Akureyrar-Höldur. Steingrímur Birgisson framkvæmdastjóri segir fyrirtækið kaupa um 700 nýja bíla á þessu ári, sem er svipaður fjöldi og í fyrra. Var bílaleigan með um 25% af öllum nýjum bílum á síðasta ári. Höldur er einnig með bílasölu og Steingrímur segir hana aðeins vera að glæðast á nýjum bílum en mun betur gangi að selja notaða bíla. Þetta er þó svipur hjá sjón miðað við hvernig var fyrir hrun.

Tengsl við bílaumboðin

Bílaleigurnar hafa löngum tengst bílasölum og -umboðum, þar sem eigendur hafa verið þeir sömu, en þetta hefur minnkað eftir hrunið. Bílaleigan Sixt er í eigu Bílabúðar Benna og Dollar Thrifty í eigu Brimborgar. Áður voru bílaleigurnar Avis, ALP og Budget tengdar Ingvari Helgasyni hf. en ekki lengur, og hið sama átti við um Hertz og Toyota-umboðið er Magnús Kristinsson var sami eigandinn. Þá starfrækir Bílaleiga Akureyrar einnig bílasölu og er með umboð á Akureyri fyrir Heklu, Bernhard og Öskju.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert