Kann að lenda á skattgreiðendum

Frystitogarinn Akraberg. Úr myndasafni.
Frystitogarinn Akraberg. Úr myndasafni. mbl.is/Hafþór

„Lögin hafa mikil áhrif á efnahagslega stöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Það er vegna þess að verðmæti aflaheimilda mun lækka, verði lögin samþykkt, og því mun raunveruleg eiginfjárstaða fyrirtækjanna veikjast,“ segir í greinargerð sérfræðihóps sem skipaður var til þess að meta hagræn áhrif frumvarps stjórnvalda til nýrra laga um stjórn fiskveiða.

Fram kemur að það sé mat hópsins að ákvæði frumvarpsins muni leiða til rúmlega 50% lækkunar á virði aflaheimilda sem sé varlega áætlað. Færa megi fyrir því rök að til enn meiri lækkunar kæmi yrði frumvarpið að lögum. Almennt séu sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi nokkuð eða mjög skuldsett sem þýði að þau séu mjög viðkvæm fyrir mikilli lækkun á verðmæti aflaheimilda.

„Frumvarpið leiðir því til þess að mun erfiðara verður fyrir fyrirtækin að halda áfram rekstri og vart réttlætanlegt hjá mörgum þegar raunverulegt verðmæti eigna verður langtum meira en virði skulda,“ segir í greinargerðinni.

Þá verði ekki hjá því komist að meta afleiðingum frumvarpsins á lánveitendur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja en ljóst sé að þær yrðu verulegar.

„Sá hluti skulda sem óraunhæft er að verði greiddur vegna frumvarpsins mun lenda sem kostnaður á lánveitendum. Í ljósi þess að lánveitingar til sjávarútvegs eru að stórum hluta í eigu banka í opinberri eigu er því ljóst að afleiðingarnar munu bitna á skattgreiðendum með beinum hætti fari áhrif þeirra umfram getu sjávarútvegsfyrirtækjanna til að taka þær á sig,“ segir ennfremur í greinargerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert